ÁLKA hefur opnað nýjan vef - þessi er ekki lengur í notkun

Aðalfundur 2022

Aðalfundur ÁLKA verður haldinn fimmtudaginn 24. febrúar 2022 klukkan 20:00 í sal Fjölsmiðjunnar að Furuvöllum 13.
Venjuleg aðalfundarstörf.

Dagskrá aðalfundar, skv. lögum klúbbsins:
1. Formaður setur fundinn.
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
3. Skýrsla stjórnar.
4. Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
5. Lagabreytingar.
6. Ákveðið félagsgjald næsta árs.
7. Kosning stjórnar
8. Önnur mál.

Við viljum minna félagsmenn á að greiða árgjaldið sem fyrst – þeir sem það skulda.

Stjórnin.

Lög ÁLKA

Árgjaldið komið í heimabankann

Kæru félagar,

nú er komið að því að innheimta árgjaldið í klúbbinn. Greiðsluseðlar hafa verið sendar í heimabankann hjá skráðum félögum en tekið skal fram að þau sem hafa gengið í klúbbinn núna nýlega þurfa ekki að borga alveg strax aftur. Á síðasta aðalfundi var samþykkt að halda árgjaldinu óbreyttu frá fyrra ári og er það 6.500 krónur. Við þá upphæð bætast 250 krónur í bankakostnað vegna innheimtunnar.

Við vonum að félagar bregðist skjótt við og greiði árgjaldið fljótt og vel. Það skal þó tekið fram að engir dráttarvextir reiknast þótt greitt sé eftir eindaga og enginn þarf að óttast harðar innheimtuaðgerðir.

Félagsgjaldið hefur verið aðaltekjulind klúbbsins og þótt lítið svigrúm hafi gefist til skemmtilegra viðburða síðustu mánuði þá virðist loksins vera að rofa til og vonandi verður nóg um að vera í félagsstarfinu seinni hluta ársins. Klúbburinn á stórafmæli á árinu, vegleg afmælissýning er í undirbúningi og mikilvægt að klúbburinn hafi bolmagn til að gera afmælinu góð skil. Vonandi sjá klúbbfélagar sér í hag í að taka þátt í starfinu með okkur, greiða árgjaldið og jafnvel draga einhverja áhugasama með sér í klúbbinn!

Stjórnin.

Tíðindi af aðalfundi

Þau tíðindi urðu á aðalfundi félagsins að Ármann Hinrik Kolbeinsson ákvað að taka sér „hlé“ frá stjórnarsetu, en hann er búinn að vera lengi í stjórn og formaður félagsins síðasta áratuginn. Davíð Valsson var kjörinn í stjórnina í stað Ármanns.

Ármanni eru þökkuð vel unnin störf í þágu ÁLKA og Davíð boðinn velkominn. Ármann ætlar þó ekki að setjast í helgan stein, því hann hefur tekið að sér að leiða undirbúninginn að afmælissýningu félagsins, sem við vonumst til að geti orðið að veruleika með haustinu.

Nýkjörin stjórn er búin að koma saman til fundar og skipta með sér verkum. Nýr formaður félagsins er reynsluboltinn Sigurgeir Haraldsson, sem sinnt hefur ritarahlutverkinu af stakri prýði um langt skeið. Við ritarapennanum tekur Helga Gunnlaugsdóttir, Valur Sæmundsson er áfram gjaldkeri og þau Heiðrún Ásta Torfadóttir og Davíð Valsson meðstjórnendur. Stjórnin er þegar farin að leggja drög að félagsstarfinu og tekur fagnandi við öllum hugmyndum og tillögum frá félögum um viðburði, kynningar, fræðslu og hvaðeina. Þetta er félagið okkar allra og mikilvægt að sem flestir séu virkir í starfinu og hafi áhrif á að móta það.

Þá má geta þess að á aðalfundinum var samþykkt að árgjaldið yrði óbreytt frá fyrra ári, krónur 6.500. Innheimta mun fara af stað á næstu vikum og eins og áður mun greiðsluseðill birtast í heimabankanum.

Ekki er hægt að skilja við fréttir af aðalfundinum án þess að minnast á salinn góða sem fékkst lánaður til að halda fundinn í. Við færum Fjölsmiðjunni og Hannesi Péturssyni kærar þakkir fyrir afnot af þessum frábæra sal 🙂

Aðalfundur 2021

Aðalfundur ÁLKA verður haldinn fimmtudaginn 11. mars 2021 klukkan 20:00 í sal Fjölsmiðjunnar Furuvöllum 13. Á neðri hæðinni hjá okkur.
Venjuleg aðalfundarstörf.
Dagskrá aðalfundar.
1. Formaður setur fundinn.
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
3. Skýrsla stjórnar.
4. Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
5. Lagabreytingar.
6. Ákveðið félagsgjald næsta árs.
7. Kosning stjórnar
8. Önnur mál.
Við viljum minna félagsmenn á að greiða árgjaldið sem fyrst – þeir sem það skulda.
Stjórnin.

Febrúarfréttir – aðalfundur og afmælissýning

Ágætu félagar.

Covid hefur hér líkt og annars staðar haft áhrif á starfsemi klúbbsins síðasta ár og starfsemin því verið í lágmarki. Sem betur fer náðum við nokkrum ljósmyndaferðum í haust svo að við vorum ekki alveg aðgerðalaus.

En nú er nýtt ár og útlit fyrir að við losnum undan Covidinu seinna á árinu. Við þurfum líka að hugsa fyrir framtíðinni svo að aðalfundur verður haldinn í byrjun mars. Við bíðum aðeins með að gefa út dagsetningu á meðan við bíðum eftir staðfestingu á staðsetningu fundarins. Í augnablikinu megum við aðeins hafa 20 á fundinum og því verður skráningarskylda á fundinn.

Í ár er kosið um 2 stjórnarmeðlimi. Annar gefur kost á sér áfram svo að við þurfum að finna 1 nýjan í stjórn. Er ekki einhver sem langar til að koma inn í stjórn með okkur og móta framtíðina?

Í ár er klúbburinn okkar 30 ára og við ætlum að halda veglega afmælissýningu síðari hluta ársins. Þess má geta að klúbburinn fær styrk frá Norðurorku til sýningarhaldsins en tilkynnt verður formlega um styrkþega síðar í þessum mánuði. Okkur vantar nokkra klúbbfélaga með okkur í sýningarnefnd.

Áhugasamir geta haft samband við stjórn.

Árgjaldið komið í heimabankann

Kæru félagar,

nú er komið að því að innheimta árgjaldið í klúbbinn. Á síðasta aðalfundi var samþykkt að hækka gjaldið um 500 krónur og er það því 6.500 krónur. Við þá upphæð bætast 250 krónur í bankakostnað vegna innheimtunnar.

Við vonum að félagar bregðist skjótt við og greiði árgjaldið fljótt og vel. Það skal þó tekið fram að engir dráttarvextir reiknast þótt greitt sé eftir eindaga.

Félagsgjaldið hefur verið aðaltekjulind klúbbsins og framundan er merkisafmælisárið 2021 þar sem margt skemmtilegt er í bígerð og mikilvægt að klúbburinn hafi bolmagn til að undirbúa það vel og gera afmælinu vegleg skil. Vonandi sjá klúbbfélagar sér í hag í að taka þátt í starfinu með okkur, greiða árgjaldið og jafnvel draga einhverja áhugasama með sér í klúbbinn!

Stjórnin.

Engir fundir á næstunni

Ágætu ÁLKA félagar.

Við höfum ákveðið að fella niður næstu tvo fundi vegna aðstæðna í þjóðfélaginu vegna Covid-19. Aðstaðan okkar er ekki nægilega stór til að halda tveggja metra fjarlægð á milli manna ef fleiri en stjórnin mætir. Við ætlum ekki að loka stúdíóinu, en þeir sem þangað koma til að mynda eru á eigin ábyrgð og verða að fylgja öllum reglum um sóttvarnir, þrífa með spritti allt sem snert er og passa upp á gestina.

Stjórnin.

Félagsfundur 5. mars

Ágætu félagar,

fimmtudagskvöldið 5. mars kl. 20 verður kaffispjallfundur í kjallaranum í Eymundsson. Drykkir og kruðerí keypt uppi í kaffihúsinu og svo sitjum við niðri og ræðum málin.

Við ætlum meðal annars að ræða hugmyndir að fundarefnum fram til vors og allar uppástungur og óskir þar að lútandi eru vel þegnar. Sem dæmi má nefna að núna þegar veðrið er farið að vera til friðs gefast ýmsir spennandi möguleikar á æfingum í útimyndatökum (myndataka í sól/snjó, myndataka úti með flassi, næturmyndatökur með eða án norðurljósa, o.fl.) og alltaf er eftirspurn eftir leiðsögn varðandi myndvinnslu.

Sjáumst á fimmtudagskvöldið og ræðum málin. Hvetjum félagsmenn til að taka með sér áhugasama gesti!

Stjórnin.

Stúdíó ÁLKA – breytt gjaldskrá og afsláttarkort

Ágætu félagar,

á aðalfundi klúbbsins þann 20. febrúar sl. voru góðar og gagnlegar umræður um tillögu stjórnar að breyttri gjaldskrá fyrir afnot af ljósmyndastúdíóinu okkar. Stjórnin hefur nú lokið við að útfæra breytingarnar og ný gjaldskrá sem gildir frá 1. mars 2020 verður nú kynnt.

Gjald fyrir hvert skipti (2 klst.) hækkar úr 1500 krónum í 2000 krónur.

Sú nýbreytni er tekin upp að boðið verður upp á að kaupa afsláttarkort, sem gilda í 12 mánuði frá kaupdegi.

Þrenns konar kort eru í boði:

Brons – kostar 8.000 krónur og gildir fyrir 5 skipti.
Silfur – kostar 15.000 krónur og gildir fyrir 10 skipti.
Gull – kostar 20.000 og veitir ótakmarkaðan aðgang.

Samhliða nýju gjaldskránni er áformað að bjóða upp á aðstoð og kennslu fyrir þá sem vilja koma sér af stað í að nota stúdíóið. Þetta verða þrjú kvöld og geta félagsmenn valið að koma eitt af þessum kvöldum og fá aðstoð við að tengja eigin myndavél við ljósin og prófa að mynda. Dagsetningar verða auglýstar fljótlega.

Það er von stjórnarinnar að með þessum breytingum aukist áhugi félaga á að nota nýja stúdíóið, sem mikil vinna hefur verið lögð í að gera sem glæsilegast.

Eins og áður verða tímabókanir gerðar í dagatali ÁLKA á netinu og lyklaafhending í Pedromyndum. Nánari leiðbeiningar um kortakaupin, greiðslumáta og bókunarferlið verða settar inn á vef klúbbsins og í FB-hópinn.

Stjórnin.