Category Archives: Félagsfundur

Tíðindi af aðalfundi

Þau tíðindi urðu á aðalfundi félagsins að Ármann Hinrik Kolbeinsson ákvað að taka sér „hlé“ frá stjórnarsetu, en hann er búinn að vera lengi í stjórn og formaður félagsins síðasta áratuginn. Davíð Valsson var kjörinn í stjórnina í stað Ármanns.

Ármanni eru þökkuð vel unnin störf í þágu ÁLKA og Davíð boðinn velkominn. Ármann ætlar þó ekki að setjast í helgan stein, því hann hefur tekið að sér að leiða undirbúninginn að afmælissýningu félagsins, sem við vonumst til að geti orðið að veruleika með haustinu.

Nýkjörin stjórn er búin að koma saman til fundar og skipta með sér verkum. Nýr formaður félagsins er reynsluboltinn Sigurgeir Haraldsson, sem sinnt hefur ritarahlutverkinu af stakri prýði um langt skeið. Við ritarapennanum tekur Helga Gunnlaugsdóttir, Valur Sæmundsson er áfram gjaldkeri og þau Heiðrún Ásta Torfadóttir og Davíð Valsson meðstjórnendur. Stjórnin er þegar farin að leggja drög að félagsstarfinu og tekur fagnandi við öllum hugmyndum og tillögum frá félögum um viðburði, kynningar, fræðslu og hvaðeina. Þetta er félagið okkar allra og mikilvægt að sem flestir séu virkir í starfinu og hafi áhrif á að móta það.

Þá má geta þess að á aðalfundinum var samþykkt að árgjaldið yrði óbreytt frá fyrra ári, krónur 6.500. Innheimta mun fara af stað á næstu vikum og eins og áður mun greiðsluseðill birtast í heimabankanum.

Ekki er hægt að skilja við fréttir af aðalfundinum án þess að minnast á salinn góða sem fékkst lánaður til að halda fundinn í. Við færum Fjölsmiðjunni og Hannesi Péturssyni kærar þakkir fyrir afnot af þessum frábæra sal 🙂