Author Archives: Valur

Árgjaldið komið í heimabankann

Kæru félagar,

nú er komið að því að innheimta árgjaldið í klúbbinn. Á síðasta aðalfundi var samþykkt að hækka gjaldið um 500 krónur og er það því 6.500 krónur. Við þá upphæð bætast 250 krónur í bankakostnað vegna innheimtunnar.

Við vonum að félagar bregðist skjótt við og greiði árgjaldið fljótt og vel. Það skal þó tekið fram að engir dráttarvextir reiknast þótt greitt sé eftir eindaga.

Félagsgjaldið hefur verið aðaltekjulind klúbbsins og framundan er merkisafmælisárið 2021 þar sem margt skemmtilegt er í bígerð og mikilvægt að klúbburinn hafi bolmagn til að undirbúa það vel og gera afmælinu vegleg skil. Vonandi sjá klúbbfélagar sér í hag í að taka þátt í starfinu með okkur, greiða árgjaldið og jafnvel draga einhverja áhugasama með sér í klúbbinn!

Stjórnin.

Engir fundir á næstunni

Ágætu ÁLKA félagar.

Við höfum ákveðið að fella niður næstu tvo fundi vegna aðstæðna í þjóðfélaginu vegna Covid-19. Aðstaðan okkar er ekki nægilega stór til að halda tveggja metra fjarlægð á milli manna ef fleiri en stjórnin mætir. Við ætlum ekki að loka stúdíóinu, en þeir sem þangað koma til að mynda eru á eigin ábyrgð og verða að fylgja öllum reglum um sóttvarnir, þrífa með spritti allt sem snert er og passa upp á gestina.

Stjórnin.

Félagsfundur 5. mars

Ágætu félagar,

fimmtudagskvöldið 5. mars kl. 20 verður kaffispjallfundur í kjallaranum í Eymundsson. Drykkir og kruðerí keypt uppi í kaffihúsinu og svo sitjum við niðri og ræðum málin.

Við ætlum meðal annars að ræða hugmyndir að fundarefnum fram til vors og allar uppástungur og óskir þar að lútandi eru vel þegnar. Sem dæmi má nefna að núna þegar veðrið er farið að vera til friðs gefast ýmsir spennandi möguleikar á æfingum í útimyndatökum (myndataka í sól/snjó, myndataka úti með flassi, næturmyndatökur með eða án norðurljósa, o.fl.) og alltaf er eftirspurn eftir leiðsögn varðandi myndvinnslu.

Sjáumst á fimmtudagskvöldið og ræðum málin. Hvetjum félagsmenn til að taka með sér áhugasama gesti!

Stjórnin.

Stúdíó ÁLKA – breytt gjaldskrá og afsláttarkort

Ágætu félagar,

á aðalfundi klúbbsins þann 20. febrúar sl. voru góðar og gagnlegar umræður um tillögu stjórnar að breyttri gjaldskrá fyrir afnot af ljósmyndastúdíóinu okkar. Stjórnin hefur nú lokið við að útfæra breytingarnar og ný gjaldskrá sem gildir frá 1. mars 2020 verður nú kynnt.

Gjald fyrir hvert skipti (2 klst.) hækkar úr 1500 krónum í 2000 krónur.

Sú nýbreytni er tekin upp að boðið verður upp á að kaupa afsláttarkort, sem gilda í 12 mánuði frá kaupdegi.

Þrenns konar kort eru í boði:

Brons – kostar 8.000 krónur og gildir fyrir 5 skipti.
Silfur – kostar 15.000 krónur og gildir fyrir 10 skipti.
Gull – kostar 20.000 og veitir ótakmarkaðan aðgang.

Samhliða nýju gjaldskránni er áformað að bjóða upp á aðstoð og kennslu fyrir þá sem vilja koma sér af stað í að nota stúdíóið. Þetta verða þrjú kvöld og geta félagsmenn valið að koma eitt af þessum kvöldum og fá aðstoð við að tengja eigin myndavél við ljósin og prófa að mynda. Dagsetningar verða auglýstar fljótlega.

Það er von stjórnarinnar að með þessum breytingum aukist áhugi félaga á að nota nýja stúdíóið, sem mikil vinna hefur verið lögð í að gera sem glæsilegast.

Eins og áður verða tímabókanir gerðar í dagatali ÁLKA á netinu og lyklaafhending í Pedromyndum. Nánari leiðbeiningar um kortakaupin, greiðslumáta og bókunarferlið verða settar inn á vef klúbbsins og í FB-hópinn.

Stjórnin.