Um ÁLKA

Áhugaljósmyndaraklúbbur Akureyrar, ÁLKA, var stofnaður í mars 1991.

Helsti hvatamaður að stofnun hans var Kjartan Þorbjörnsson, Golli, sem nú er starfandi ljósmyndari á Morgunblaðinu.

Markmið félagsins er að ná saman og virkja áhugafólk um ljósmyndun, skapa því aðstöðu ásamt því að auka þekkingu og miðla meðal félagsmanna. Félagsstarfið er fjölbreytt. Auk almennra funda með myndasýningum, spjalli og fjölbreyttum viðfangsefnum hefur félagið fengið til sín ýmsa fyrirlesara, bæði fagmenn í ljósmyndun og aðra myndlistarmenn með fróðleg erindi. Einnig er farið í sérstaka ljósmyndaleiðangra þegar færi gefst. Margir félagsmanna einbeita sér að náttúruljósmyndun, t.d. landslagi eða blómum, aðrir mynda bæinn og bæjarumhverfið, sumir fjölskylduna og börnin og enn aðrir sérhæfa sig t.d. í að ljósmynda flugvélar eða skip og hafa komið upp góðu safni þess konar mynda. Talsverður áhugi er á heimildaljósmyndun meðal félagsmanna.

ÁLKA stóð fyrir fyrsta ljósmyndamaraþoninu sem haldið var á Íslandi hér á Akureyri árið 1992 og er félagið brautryðjandi á því sviði hér á landi. Hugmyndin er fengin frá Svíþjóð upphaflega. Að auki hefur félagið gefið út ljósmyndabók og sett upp fjölbreytilegar ljósmyndasýningar, bæði á verkum félagsmanna og annarra ljósmyndara.

Síðasta stórvirki félagsmanna var bókin AKUREYRI – BÆRINN OKKAR, sem kom út árið 2000 en þar er fjallað um mannlíf og viðburði í Akureyri og nágrenni um aldamót. Bókin er enn fáanleg hjá klúbbnum.

Vinnu- og fundaraðstaða félagsins er í nýju félagsheimili ÁLKA að Furuvöllum 13, annarri hæð. Þar er vel búið ljósmyndastúdíó, sem félagar geta fengið afnot af.

Fundað er reglulega yfir vetrartímann annan hvern fimmtudag kl. 20:00. Félagið er opið öllum áhugamönnum um ljósmyndun og er fólki frjálst að mæta á fundi.

Hafir þú áhuga á að ganga í klúbbinn og nýta þér aðstöðuna, þá getur þú smellt hér.

Árgjald í félagið er kr. 6.500,-

Tekið er skýrt fram að öll réttindi eru áskilin varðandi allt efni sem birtist á vefsíðunni. Kíktu á höfundarréttarlögin.